Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

975/2012

Reglugerð um desemberuppbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um desemberuppbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði í desember 2012.

2. gr.

Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012 og verið skráður á atvinnuleysisskrá í samtals tíu mánuði á árinu 2012 á rétt á desemberuppbót úr Atvinnuleysistryggingasjóði að fjárhæð kr. 50.152 enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma.

Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. mgr. enda hafi viðkomandi verið skráður á atvinnuleysisskrá þann tíma.

3. gr.

Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012 og verið skráður á atvinnuleysisskrá samtals í tíu mánuði á árinu 2012 en tryggður hlutfallslega á umræddum tíma á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót skv. 1. mgr. 2. gr. í samræmi við það tryggingarhlutfall sem um ræðir.

Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. mgr. enda hafi viðkomandi verið skráður á atvinnuleysisskrá þann tíma.

4. gr.

Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012 en verið skráður á atvinnuleysisskrá í skemmri tíma en tíu mánuði á árinu 2012 á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót skv. 1. mgr. 2. gr. í samræmi við þann tíma sem hann hefur verið skráður á atvinnuleysisskrá enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma, sbr. þó 5. gr.

Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012 en verið skráður á atvinnuleysisskrá í skemmri tíma en tíu mánuði á árinu 2012 ásamt því að hafa verið hlutfallslega tryggður á umræddum tíma á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót skv. 1. mgr. 2. gr. í samræmi við það tryggingarhlutfall sem um ræðir og þann tíma sem hann hefur verið skráður á atvinnuleysisskrá á árinu 2012, sbr. þó 5. gr.

Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. eða 2. mgr. enda hafi viðkomandi verið skráður á atvinnuleysisskrá þann tíma.

5. gr.

Desemberuppbót skv. 4. gr. skal aldrei nema lægri fjárhæð en 12.538 kr. miðað við að viðkomandi hafi átt rétt á óskertu tryggingarhlutfalli skv. III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma. Lágmarks desemberuppbót er ¼ hluti sömu fjárhæðar.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Desemberuppbætur samkvæmt reglugerð þessari skulu greiddar út eigi síðar en 15. desember 2012.

Velferðarráðuneytinu, 16. nóvember 2012.

Guðbjartur Hannesson.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.